Öll börn fara einu sinni í viku í leikfimi.

Hreyfing er mikilvæg fyrir alhliða þroska barna. Börn hafa mikla þörf fyrir að hreyfa sig frjálst og óhindrað. Hreyfing stuðlar að líkamlegri og andlegri vellíðan, gleði, snerpu og þoli. Í leikskólanum er hreyfiþörf virt og örvuð og börnin læra að þekkja og skynja líkama sinn. Öll hreyfing stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan. Börn sem búa yfir góðri hreyfifærni og líkamsstyrk eiga auðveldara með að njóta bæði útiveru og gönguferða og að kanna umhverfi sitt. Leikir, sem reyna á líkamann, veita barni útrás. Útiveran býður upp á mikla möguleika til að örva grófhreyfingar og utan dyra geta börnin leyft sér ærslaleiki, hróp og köll.

 

Markmið með hreyfingu í leikskólanum er:

 

 • að efla hreyfiþroska og hreyfigetu
 • að auka sjálfstraust þeirra og vellíðan
 • að losa um streitu og umfram orku
 • að þekkja líkama sinn
 • að auka úthald
 • að efla samhæfingu
 • að vernda heilsu barnanna
 • að börnin læri ýmis stöðuhugtök, átti sig á rými, fjarlægðum og áttum


 Leiðir að markmiðum eru:

 • útivera
 • gönguferðir
 • sjálfsprottinn  leikur
 • gott leikrými úti og inni
 • hreyfistund/leikfimi/hreyfileikir eru einu sinni í viku byggðir  á leikjum, æfingum hreyfisöngvum, dansi, og slökun
 • ýmsir hlaupaleikir reyna á þrótt barnanna og úthald