Leiðarljós leikskóla 

Leikskólinn er fyrsta stig skólakerfisins og upphaf formlegrar menntunar einstaklinga. Leikskólaaldurinn er mikilvægur tími náms og þroska. Í samstarfi við foreldra leitast kennarar skólans við að veita öllum börnum tækifæri til að njóta bernsku sinnar ásamt því að stuðla að öryggi þeirra og vellíðan. Uppeldi og menntun leikskólabarna er samvinnuverkefni allra kennara skólans, þar sem velferð og hagur barnanna er leiðarljós í öllu starfi. Kennarar sýna börnum virðingu og hlusta á þau, hvort sem er á þarfir þeirra, orð eða tilfinningar og hlúir þannig að sjálfsvirðingu þeirra. Í leikskólanum nota leikskólakennarar öll tækifæri sem gefast til að örva nám barna. Umönnun er stór hluti af leikskólastarfinu og er fólgin í því að annast börnin líkamlega og andlega af hlýju, áhuga og ábyrgðarkennd. Með slíkri umönnun skapast tilfinningatengsl og trúnaðartraust.