Foreldraráð Efstahjalla

Um foreldraráð í Lögum um leikskóla

IV. KAFLI - Foreldrar og foreldraráð

11. gr. Foreldraráð.

Kjósa skal foreldraráð við leikskóla og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið. Í foreldraráði sitja að lágmarki þrír foreldrar. Skal kosning til foreldraráðs fara fram í september á ári hverju og skal kosið til eins árs í senn. Foreldraráð setur sér starfsreglur. Leikskólastjóra ber að starfa með foreldraráði. Leikskólastjóri getur sótt um undanþágu til sveitarfélags um stofnun foreldraráðs ef gildar ástæður eru fyrir hendi, svo sem vegna fámennis í leikskóla.

Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr., um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.

Í Foreldraráði Efstahjalla eru:

Daðey Arnborg Sigþórsdóttir
Þorhildur Þorkelsdóttir
Elín Þórdís Gísladóttir

 

Starfsreglur foreldraráðs Efstahjalla

Við hvern leikskóla skal starfa foreldraráð samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008 frá 12. júní og tóku gildi 1. júlí 2008.  Um foreldra og foreldraráð sjá 11. gr. IV. kafla laganna; Foreldrar og foreldraráð.

Kosning
Kjósa skal foreldraráð við leikskólann og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu þess og starfa með því.  Í foreldraráði skulu sitja þrír foreldrar barna í leikskólanum. Leitast skal við að í ráðinu séu foreldrar barna á mismunandi aldursstigum þannig að það komi ekki fyrir að allir foreldrar hætti á sama tíma.  Með því er hægt að tryggja samfellu í starfi ráðsins. Kosning skal fara fram á foreldrafundi í september ár hvert og kosið til eins árs í senn.  Skal leikskólastjóri óska eftir framboðum með tölvupóstsendingum (eða sambærilegum hætti) til allra foreldra þar sem fram kemur hvert skuli tilkynna framboð ásamt upplýsingum um hlutverk foreldraráðs.

Fundir
Foreldraráð skal funda fjórum sinnum yfir árið.  Fyrsti fundur skal haldinn fyrsta þriðjudag í október.  Þar skal kjósa formann og ritara.  Ákveða næsta fundartíma og fara yfir starfsreglur.  Skólanámskrá og ársáætlun leikskólans kynnt.  Nöfn kjörinna fulltrúa og fundagerðir skulu birtar á heimasíðu leikskólans ásamt skólanámskrá og ársáætlun.

Hlutverk
Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um leikskóla; um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum.  Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi. Leikskólastjóri skal upplýsa foreldraráð um öll meiriháttar mál sem hafa áhrif á starfsemi leikskólans og gefa þeim þannig kost á að fjalla um þau. Foreldraráð skal taka fyrir ábendingar sem koma frá foreldrum barna leikskólans og vera þannig fulltrúar þeirra.

Endurskoðun
Starfsreglur þessar skulu endurskoðaðar í byrjun hvers skólaárs af nýkjörnu foreldraráði.  Starfsreglur þessar voru samþykktar af foreldraráði 14. apríl 2010.

Fundagerðir

Fyrsti fundur foreldraráðs
 • Fyrsti fundur foreldraráðs leikskólans Efstahjalla var haldinn 6. apríl 2010.  Mættir voru Hafdís Hafsteinsdóttir leikskólastjóri, Lárus Axel Sigurjónsson formaður foreldrafélags leikskólans og Selma Guðmundsdóttir úr foreldrafélagi leikskólans.
 • Á fundinum var rætt um starfsreglur sem foreldraráð mun setja sér.  Skoðaðar starfsreglur annarra leikskóla.  Ætlum að taka okkur nokkra daga í að skoða og setja í framhaldinu starfsreglur inn á heimasíðu leikskólans.  Eins nöfn þeirra sem verða í foreldraráði.
 • Hafdís sagði okkur frá fjárhagsáætlun Kópavogs fyrir árið 2010.
 • Skólanámskrá er á heimasíðu leikskólans en er í endurskoðun.
 • Ársáætlun verður sett inn á heimasíðuna.
 • Út þetta starfsár verður Lárus Axel formaður foreldraráðs og Selma ritari.
 • Áætlað er að hafa fjóra fundi hjá foreldraráði yfir árið.  Sá fyrsti verður í byrjun október eða fyrsta þriðjudag í október.

  Selma Guðmundsdóttir
  Hafdís Hafsteinsdóttir
  Lárus Axel Sigurjónsson